Annáll og ársuppgjör 2012

Þegar ég gekk um gólf á slaginu tólf fyrr í kvöld, Gamlárskvöld, með 2ja mánaða son minn í leit að skjóli fyrir hinum árlegu, alltof réttlætanlegu atómsprengjum, fann ég fyrir undarlegri tilfinningu. Tilfinningunni að vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Finnast ef til vill ekki hafa ræst alveg eins og ég ætlaði mér úr árinu, var ég kannski búin að kasta einhverju á glæ? Ég fann að ég klökknaði -en vissi ekki alveg af hverju. Þetta augnablik þegar nýja árið gekk í garð gerðist margt í hausnum á mér.

Á sama andartaki vöknaði mér fyrir augum þegar ég áttaði mig á því að þetta ár gæti bara ekki hafa verið betra á svo margan hátt...

2012: Í byrjun þín grunaði mig ekki hvar ég myndi standa að ári liðnu, ég held það hefði aldrei hvarflað að mér að ég væri búin að reyna allt sem í raun ég hef gert, kannski engin stórafrek en svo ótrúlega mikinn lærdóm og þroska samt sem áður.

Ég var nýbúin að taka ákvörðun um að halda áfram í Kvikmyndaskólanum eftir heldur betur dramatískt haust vegna skorts á fjárstuðningi við skólann. Það hafði vægast sagt slæm áhrif á mig og hafði í raun gefið upp alla von -en ákvað á endanum að taka upp þráðinn og sé svo sannarlega ekki eftir því núna.

Elsku besta langamma mín yfirgaf okkur og skildi eftir holu í hjartanu en á sama tíma minnti hún mig á að sama hversu stórum og mörgum áföllum við verðum fyrir í lífinu, er alltaf pláss fyrir lífsgleði og bjartsýni, hún var kona sem sannaði það. Þegar langamma dó var ég nýbúin að komast að því að ég væri ólétt, því betur fékk hún fréttirnar rétt áður en hún þurfti að fara -þegar Huginn okkar fæddist kom amma með síðustu skóna sem þú hafðir pjónað, bara síðastliðinn vetur, orðinn níræð, og handbragðið fullkomið að mínu mati -þótt þú hefðir viljað rekja þá upp út af ósýnilegum galla :)

Í vor fór öll mín orka og elja í að elda lítinn kút í bumbunni og klára síðust áfangana í skólanum -þeir einkenndust oft á tíðum af mikilli líkamlegr og andlegri vinnu langt fram á kvöld og stundum nætur, Samhliða var skellt saman einni 20 mínútna stuttmynd út í hrauni heima í Bárðardal með söngvum og herlegheitum, það var verkefni sem kostaði mig svefn og góðan slurk af geðheilsu í heilan mánuð, en allt gekk þetta á endanum og lokaafurðin var sýnd við góðar undirtektir í Bíó Paradís þann 29. júní: Söngstuttmyndin Flökkusál í leikstjórn Skúla Gautasonar.

Vá, aldrei datt mér í hug að ég gæti gert þetta... en júbb, eins og að drekka vatn! Eða þú veist, næstum..

Útskriftin var á sama tíma og voru þessi mánaðarmót full af blendnum tilfinningum í garð námsins. Hræðileg tilfinning að fá ekki að eyða hverjum degi með elsku bekknum mínum eins og síðustu tvö ár höfðu boðið upp á, en á sama tíma gleði og stolt yfir að vera búin með þetta krefjandi nám -sem gaf mér ekki snefil af háskólagráðu og 2.5 milljón króna reikning frá LÍN -en það var svo mikið þess virði!

Samt sem áður var strax deginum eftir brunað norður og beint í að gera upp íbúðina okkar fyrir norðan. Fyrri leigendur höfðu skilið við hana eins og tyrkneskt salerni og fóru nokkrir dagar í að klífa bekki og borð með sparsl og málningu í hendi og óléttubumban í sókn! Síðan tók við tveggja mánaða vinna í Kiðagilinu mínu sem liðu eins og sekúndubrot, -sumarið einkenndist af vinnu, grindarverkjum, þreytu og hreinlega að ná mér niður eftir andlegt álag mánuðina á undan.

Í júní, á sama tíma og ég var sem mest á haus í eftirvinnslu á lokamyndinni minni ásamt fleirum veiktist mamma alvarlega af heilahimnubólgu og lá á sjúkrahúsi í tvær vikur, -ég man ekki mikið eftir þessum tíma þar sem hann blokkaðist sennilega af álaginu en ég gerði mér ekki beinlínis grein fyrir alvarleika ástandins á þeim tíma. Því betur fór allt vel og mamma náði sér þrátt fyrir að þurfa að fara í bakaðgerð nokkrum vikum seinna.

Sumarið og haustið var óvenjuríkt af áföllum en m.a. horfði ég á eftir pabba hendast niður stiga, systur mína velta yfir sig fjórhjóli en einhvernveginn var heppnin alltaf til staðar og kom í veg fyrir meiriháttar slys. Ég býst við að maður megi þakka fyrir það.

Í haust hins vegar dundi á ógæfa með fárviðri um miðjan september þar sem tugir fjár týndist og grófst í fönn hjá mömmu og pabba, gríðarleg vinna fór í leitir næstu daga á eftir við erfiðar aðstæður. Einnig fór rafmagn og símasamband á svæðinu svo þetta voru heldur betur skrítnar aðstæður. Aldrei hafði ég upplifað að geta næstum ekki sofið fyrir kulda, en á sama tíma var þetta lærdómsríkt og svolítið kósý. Stressið í kringum fjármissin heima var þó mikill og af einhverri ástæðu veiktist ég mikið eina nóttina, það mikið að ég var flutt á sjúkrahúsið á Akureyri með sjúkrabíl og allt leit út fyrir að ég væri að fara að eiga -mánuði fyrir tímann. Pabbinn rauk úr vinnu í Reykjavík og brunaði norður, en því betur var stubburinn bara að plata og mamman bara sennilega orðin of kvíðin og stressuð í öllu þessu sem gekk á. Við ákváðum að ég hætti að vinna á þessum tímapunti og fórum suður og komum okkur fyrir í nýrri íbúð sem við fengum á leigu í Garðabæ. Þá hófst biðin...

Ótrúlega óheppni með heilsufar í minni nánustu fjölskyldu á árinu en afi minn og amma sem búa á Selfossi voru mikið fyrir norðan hjá foreldrum mínum í sumar að aðstoða og í haust var verið að stækka fjárhúsin og afi í því verkefni. Hann tók upp á því dag einn að detta ofan í grunninn og fá skurði á haus og andliti svo fossblæddi -fékk úr því sýkingar og ýmis leiðindi sem eru enn að gróa. Daginn eftir datt svo hún amma og handleggsbraut sig, það illa að ekki gekk vel að koma brotinu saman. Til að bæta við fékk Óli bróðir botnlangakast núna milli jóla og nýárs og fór í bráðabotnlangatöku.

Þannig að þetta er búið að vera ansi skrautlegt veður og heilsufarsár það er alveg víst.

En svona til að halla aðeins á gleði og bjartsýnishliðina:

Þann 21. október, á afmælisdeginum hans pabba síns, fæddist litla ljósið okkar hann Huginn Haukur, hann var skírður á jóladag. Nýja hlutverkið kallaði á aukaskammt af þolinmæði, enn meiri skammt af þolinmæði, smá svefnleysi og yfir höfuð stutta svefndúra, miklar móðuráhyggjur og hundrað "tékka á andardrættinum" ferðir fram og til baka en fyrst og fremst hefur það gefið okkar óendanlega gleði, þakklæti og ást til þessa litla lífs sem kom og gerði líf okkar svo margfalt meira virði, og ekki að það hafi verið eitthvað lítils virði fyrir.

Að sjá krílið vaxa og dafna er ólýsanleg gjöf sem er ekki hægt að lýsa og oft stari ég bara í litla andlitið og hugsa mér mér hvernig í fjandanum ég hafi farið að því að búa þetta til -og ég sem man ekkert úr efnafræðinni sem ég lærði í MA! Allt verður lítilfjörlegt í samanburði við hann, veðrið, formið, bumban, bólurnar -svo lengi sem hann er heilbrigður og heldur áfram að brosa má þetta sökkva sinn sæ, en það þýðir ekki að maður þurfi ekki að huga um það líka ;)

Það hljómar örugglega klisjulega, væmið og leiðinlega en það að vera foreldri hefur klárlega gert mig að betri manneskju. Ég lít framtíðina allt öðrum augum. Árið hefur kennt mér að framtíðarplön og framtíðarmarkmið virka og skila árangri þrátt fyrir að taka bara skref fyrir skref -nákvæmlega eins og litlu börnin, maður sér þau ekki stækka en samt einhvernveginn tekst þeim að stækka um tugi sentimetra á einu ári!

Tíminn líður svo hratt og hleypur frá manni. Það sem maður gerir í dag verður gleymt á morgun, ef það verður einhver "á morgun". Sonur minn lét mig sjá að hvert augnablik er dýrmætt, hver snerting ómetanleg og hver stund gersemi sem gæti aldrei komið aftur. Framtíðin hefur aldrei skipt mig eins miklu og eins litlu máli og nú. Hver dagur hefur sínar þjáningar og gleði og morgundagurinn kemur á ógnarhraða hvernig sem honum er eytt.

Árið 2013 verður fyrsta árið hans Hugins Hauks, árið sem flest börn upplifa sem mestar breytingar á einu ári og þroskast og læra hvað mest. Ég veit að ef það verður eins fljótt að líða og 2012 er eins gott að halda fast á spöðunum og byrja að njóta og upplifa. Ég held það sé það sem lífið bíður upp á.

Kæra 2012

Þú kenndir mér að ég sjálf er verkfæri, ég er áhugaverð eins og ég er.

Þú kenndir mér að lífið er brothætt og á sama tíma er það kraftaverk.

Þú kenndir mér að samband er vinna og ástin getur orðið meiri og betri með árunum.

Þú kenndir mér að ég á stóra og yndislega fjölskyldu sem ég þarf að passa upp á eins lengi og ég get.

Þú kenndir mér að hefðir eru góðar en nýjar hefðir koma með tímanum og venjast alveg jafn vel.

Þú kenndir mér að öfgar og útlitsdýrkun er ekki málið heldur hreint hjarta og skýr markmið.

Þú kenndir mér að umhyggja í garð annarra er miklu meira nærandi og gefandi en hatur og afbrýðisemi.

Þú kenndir mér að treysta ekki hverjum sem er, það er í lagi að velja hverja þú hefur í lífi þínu -það er allt í lagi að það líki ekki öllum við mann, öðruvísi öðlast maður ekki hamingju.

Þú kenndir mér að stundum þarf maður að brjóta odd af oflæti sínu til að ná sáttum.

Þú kenndir mér að bera virðingu fyrir skoðunum og áhugamálum annarra.

Þú kenndir mér að fjölbreytni er af hinum góða

Þú kenndir mér að hætta að dæma fólk út frá því sem ég heyri

Þú kenndir mér að það þarf að taka til í hugum fólks varðandi jafnrétti og uppeldi.

Þú kenndir mér að lífið bíður upp á svo miklu meira en bara það sem við köllum skemmtanir og "djamm"

Þú kenndir mér að ef ég trúi ekki á sjálf mig, gerir enginn annar það

Þú kenndir mér að þykja vænt um mig og mína eins og við erum

Þú kenndir mér að elska, læra, bíða, kvíla mig, slaka, vinna og vera þolinmóð.

Ákall til 2013

Ég bið að árið 2013 verði öllum til þroska og velfarnaðar. Ég bið að fólkið í landinu taki vel ígrundaðar ákvarðanir varðandi Alþingiskosningarnar í vor en láti fyrst og fremst hjartað ráða en ekki auglýsingar og pressu annarra. Við þurfum á því að halda að algerlega hæfasta fólkið sem ber hag þjóðarinnar fyrir brjósti verði valið -eins einfalt og það er ;)

Ég bið að árið 2013 verði fólki ljóst að vanvirðing í garð annarra og þar á meðal kvenna er engum öðru að kenna en samfélaginu og þeim meinum sem þar gróa. Við þurfum að líta okkur nær í stað þess að auka öryggisgæslu eða umræðu um t.d. nauðganir þarf að fara inn í skólana með fræðslu og tryggja að þeir sem eru sjúkir fái þau úrræði sem þeir þarfnast. Vandamálið liggur okkar á meðal og í þeim skilaboðum sem VIÐ gefum. Samfélagið er OKKAR ábyrgð.

Ég bið að 2013 verðir ár fjölskyldunnar, að núverandi og komandi ríkisstjórn taki fastari skref í áttina að bjarga heimilunum og tryggja þjónustu við þá sem þurfa mest á því að halda.

Ég bið að árið 2013 verðir vænlegt fyrir íslenskan efnahag og að þeir sem vettlingunum valda taki skynsamlegar ákvarðanir varðandi fjárfestingar og skattamál.

Ég bið að árið 2013 verði fólk farið að skilja að það eru langtímamarkmiðin og eljusemin sem koma okkur þangað sem við ætlum okkur. Skyndiákvarðanir, áhættufjárfestingar og auðveldu leiðirnar eru í flestum tilfellum til þess gerð að valda okkur vonbrigðum og enn verra -tjóni.

Ég bið að árið 2013 verði bjartara í trúmálum, að fólk beri virðingu fyrir trú annarra og leyfi börnunum að upplifa trúna, hver sem hún kann að vera, eins og þau þurfa og kunna best, -frá hjartanu.

Elsku 2013, ég hlakka til að takast á við þig, stækka búðina mína, læra, vinna, ala upp barnið mitt og eiga góðar stundir með fjölskyldu og vinum. Ég hlakka til að gera 2013 að ennþá betra ári!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Flott blogg hjá þér Anna. Gleðilegt ár til ykkar með þökk fyrir liðnu árin :)

Sigurður Haraldsson, 1.1.2013 kl. 20:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Anna Sæunn Ólafsdóttir

Höfundur

Anna Sæunn Ólafsdóttir
Anna Sæunn Ólafsdóttir
Höfundur er móðir, listamaður, uppistandari, heilsufrík í laumi.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 72683 623167801067147 896279264 n
  • VALENTÍNUSARVÖFFLUR
  • Graflaxlúxussalat

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband