Er það mín eða þín siðblinda?

Í ljósi umræðunnar um óþolandi fólk í verslunum kann ég skemmtilega sögu. 

 

Föstudagseftirmiðdagur. Ég var nýbúin að skutla eiginmanninum og hágrátandi syni mínum heim með kúkableiu, eftir fund með fjármálaráðgjafa þar sem við höfum gleymt að grípa með okkur bleiu af því að fundinum var seinkað, því ráðgjafinn tvíbókaði sig og þurftum því að koma beint frá dagmömmunni.

 

Ég var að enda við að skutlast um Kópavoginn í hinni "belowed" 17:00 umferð með ekkert nema maskínukaffi frá ráðgjafarfyrirtækinu, streymandi um blóðið með tilheyrandi hjartslætti, skjálfta og hungurverkum, að láta mig dreyma um hnetustykki sem ég sá í hillingum.

 

Það rifjaðist líka upp fyrir mér, til mikillar ánægju, að ég átti að mæta í ristilspeglun á mánudeginum og mætti bara borða tært, fljótandi fæði alla helgina.  Svo ég þyrfti nú allavega að eiga eitthvað bitastætt í þeim tærfæðisefnum. Eða eitthvað síður bitastætt þ.e.a.s.

 

Ég ákvað því að láta fimmta og síðasta heilræði fjármálaráðgjafans sem hann var að að enda við að tyggja ofan í okkur,  um að fara aldrei, aldrei, ALDREI svangur að versla, sem vind um eyru þjóta og réttlætti ákvörðun mína um að koma við í Krónunni á leiðinni heim með því að það væri ekki til brauð heima. Og latar húsmæður verða að eiga brauð. 

 

Þegar þangað var komið var ég komin með hungurverki og greip auðvitað það í körfuna sem fyrir varð. Ekki nóg með að ég þyrfti að eiga nóg af fjölbreyttum vökvum til að neyta um helgina þá rann það upp fyrir mér að þetta væri síðasti dagurinn sem ég mætti borða fasta fæðu, þangað til á mánudagssíðdeginu. Þá fyrst tók græðgin völdin!

 

Í kvöld skyldi etið!

 

Þegar ég var að verða komin að kössunum rak ég augun fyrir tilviljun í minnsta nammibar á landinu, ef borinn saman við meðal sælgætissjálfsafgreðslubari á Íslandi, en þeirrar nýlundu gætti á þessum bar að það var 50% afsláttur á föstudögum líka, og fljótandi fæði á laugardegi þýðir bara eitt: Að slást við 10 ára krakka um Haribo egg á föstudegi til tilbreytingar!

 

Á þessum tímapunkti var ég farin að skjálfa af kaffivímunni og fyrsta skeiðin af jelly babies rann, ekki ofan í pokkann, heldur beint á gólfið! Ég stóð eins og asni til að byrja með, og leið kjánalega að hafa ekki getað hitt í pokann, þar sem ég vildi meina að ég væri ekki einu sinni vön að hanga á nammibörum hvort sem er. En varð svo hugsað til gólfins á nammibarnum í Hagkaup og hugsaði með mér að einhver góðviljaður starfsmaður myndi sópa eftir mig þegar ég væri farin. Þegar ég gerði mig klára í að halda áfram að skófla í pokann fann ég að einhver stóð álengdar og horfði á mig, ég hitnaði smá í vöngum af einhverri ástæðu en leit ekki upp. Þá heyrðist rödd: “Ætlarðu að skilja þetta bara eftir svona?”

 

Ég leit upp skelfd innra með mér og hugsaði að nú hefði starfsmaður séð til mín og ekki líkað umgengnin, en sá í staðinn fýldan, eldri mann standa við körfuna sína og stara á mig. Ég reyndi að halda áfram eins og ekkert hefði í skorist og muldraði vandræðalega “Ja.. Já, ekki set ég þetta aftur ofan í”. Þar með hélt ég að málið væri dautt, nema hvað að kallinn stendur þarna áfram og heyfir sig ekki, svaraði mér ekki einu sinni, og um leið áttaði ég mig á að hann væri alveg vís með að fara og klaga mig fyrir að sulla óvart nokkrum hlaupköllum á gólfið. Þannig að ég hélt áfram: “Já það þyrfti náttúrulega bara að sópa þetta”, og hugsaði til starfsfólksins sem var allt fast á kassa og myndi líklega halda að ég væri að grínast ef ég kæmi og segði að ég hefði óvart misst nokkra hlaupkalla í gólfið og þyrfti að þrífa það upp.

 

En einhvern veginn þorði ég ekki að láta reyna á ásökunartóninn og dauðadóms svipinn á þessum ágæta manni og skúbbaði köllunum því nær ósjálfrátt með höndunum upp í rennu sem var fyrir neðan nammibarinn. Ekki veit ég hvort honum hefur liðið eitthvað betur með það en hann var allavega farinn þegar ég leit upp, og ég búin að missa listina á að fá mér meira nammi. Þannig að tvær tegundir enduðu í nammipokanum -sem endaði líf sitt sem fljótafgreiddur forréttur minn þegar heim var komið.

 

Ég passaði mig að taka aukahring í búðinni eftir þessa dómsdagsupplifun svo ég myndi nú örugglega ekki lenda nálægt honum í röð á kassann. Loks þegar ég sá að kallinn var farinn hætti ég mér í eina af búðarlöngu röðunum á kassa og á meðan ég beið blöstu við mér orðin “Komdu fljótt aftur ” fyrir framan mig. Ekki beint það sem ég hugsað á þessum tímapunkti þar sem mig langaði mest af öllu að hverfa ofan í jörðina, eftir að hafa látið afskiptasamt, gamalt greppitrýni láta mér líða eins og ég væri fáviti af því að ég var ekki komin með skúringarmoppuna á loft inn í verslun ef því að blandípokað mitt datt aðeins í gólfið.

 

“Fyrirgefðu hefurðu komið í nammiland í Hagkaup eða??”, “Áttu eitthvað bágt að vera að gera lítið úr fólki sem þú þekkir ekkert?”, “Er ég kannski eitthvað siðblind?” Þetta og fleiri hugsanir fóru í lestarferð um hausinn á mér þegar ég keyrði heim, úrill, svöng og niðurrifin af gammalli kartöflu á föstudeginum fyrir helgina sem ég mátti ekki borða neitt. What a life, what a life.

 

Ég komst samt að þeirri niðurstöðu að ég hlyti að vera átta sinnum skemmtilegri og betri manneskja en kartöfluhausinn í Krónunni, en ég viðurkenndi að vera vissulega haldin klaufaskap, agaleysi og meðvirkni. 

 

 


Kjálkalausir kolkrabbar á færibandi

Fari það í sótbölvað hvað ríkisstjórnin okkar er heimsk -nei heimsk er ekki nógu sterkt, rétta orðið er einhverf og gráðug. Eða bara óstjórnlega veruleikafirrt.

Ekki það að ég elski að tala um pólitík en stundum eru bara engin orð sem get lýst því hvað við búum á skrítnu landi þar sem hégómi, græðgi og yfirborðsmennska vega mun þyngra hjá meginþorra fólks heldur en heilsa, hamingja og náunginn.  

Ekki það að ég hafi lausn sjálf en við erum með þessu áframhaldi að stefna hraðbyr til Súdan og Norðurlöndin og þeirra velferðarkerfi vinka bless með háðung og hverfa sjónum hraðar en ísinn manns í rússíbana. 

72683_623167801067147_896279264_n

Það þarf ekki að útlista hvað við erum að tala um en gjöld fyrir sjúkrahúslegu, bilaðar AUKA fjárveitingar til kirkjunnar og alltof margt annað gjörsamlega á skjön við veruleikann er í kortunum þegar heilbrigðiskerfið er til að mynda að hruni komið og fólk með banvæna sjúkdóma þarf að eyða síðustu aurunum í sjúkrakostnað.

Forréttindasjúklingar þessa lands eru hinir sjúku í völd, peninga og veraldlegar nautnir og af tvennu illu held ég að það sé skárra að vera með geðsjúkur en græðgisjúkur. 

Gamla klisjan væri að segjast ætla að flytja af þessum viðurstyggilega klaka sem enginn getur reynt að halda fram að sé svo fallegur og frábær þegar svona lýð er að finna í hverju bæjarfélagi  -en ég er bara alltof helvíti þrjósk til að gefa þetta ógeðslega gráðuga þjóðfélag sem ég er fædd inn í upp á bátinn, ég veit við erum bara betri en það. 

Hysjið upp um ykkur, horfið í kringum ykkur og hættið að hugsa alltaf um boruna á ykkar eigin rassgati og reynið að sjá í gegnum allt óþarfa prjálið og hégómann sem við þurfum ekki í líf okkar og velferðarkerfi til að líða vel og í heilbrigðu þjóðfélagi -það þýðir ekki einu sinni að reyna að segja mér að það séu bara hinir útvöldu í ríkisstjórninni sem aðhyllast þessa dýrkun því frá einhverjum koma öll atkvæðin sem þeir fengu! 

Þakkið fyrir það sem þið hafið, ræktið sjálf ykkur og hættið að drekka svona ógeðslega mikið af víni í einni gusu um helgar ef þið þurfið endilega að hafa efni á að kaupa nýjustu rassapúðanærbuxurnar frá chanel.

Peace og ég lofa að vera með eins jákvætt blogg og er mér auðugt til að vega upp á móti næst -þ.e. ef það verður búið að senda ríkisstjórnina í sveit -ALVÖRU SVEIT! 

 


Lífið í núinu

Mörgum reynist kúnstin ein að lifa í þessu svokallaða núi. Við rembumst við að ná ákveðnu kjöri, markmiðum, reisums skýjaborgir í gríð og erg og krossum fingur fyrir að morgundagurinn verði betri en dagurinn í dag. 

 

Fyrr á tímum hefur þetta sjálfsagt líka verið svona, þó að einhvernveginn sé manns eigin tilfinning sú að þegar tækninnar naut ekki við og allt var "einfalt" hafi lífið í raun reynst meira virði. Fólk lifði ekki eins hratt, hafði ekki eins mikið og varð að gera sér gott úr því litla sem það hafði.

 

Í dag erum við í stanslausri samkeppni við náungann um flottari bíl, betri vinnu, dýrar hús eða frægð og frama.  Við tyggjum allskonar tuggur í von um að tuggan sú arna verði sú sem fleyti okkur yfir markið, vonum að þessi tilraun verið til að landa okkur titlinum sem við höfum þráð. 

 

Aldrei sátt, aldrei ánægð, alltaf meir.

 

Stress er og verður lífsstílsvandamál okkar mannfólksins, lífsstílssjúkdómur öllu heldur sem, hvort heldur sem við trúum því eða ekki drefur fleira fólk til dauða en okkur órar fyrir. Ekki nóg með að stress valdi auki líkur á lífshættulegum sjúkdómum á borð við hjartasjúkdóma og krabbamein heldur einnig undirförla, lífshættulega sjúkdóminn þunglyndi. 

 

Fjárfesting í betri andlegri líðan í formi líkamsræktar, slökunar, ánægju- og samverustunda með ástvinum er ávísun á farsælli ævi og endalok. Við erum of mörg ódugleg við að rækta okkur sjálf á þann hátt að halda okkur réttu megin við línuna, þeim megin við línuna sem við þurfum að vera til að lifa að sjá barnabörnin og barnabarnbarnabörnin. 


30 lyktir og "brögð" sem færa mann í annað hugarástand

Mér finnast lyktir og brögð vera meiriháttar. Lyktin ein getur gjörbreytt hugarfari og ástandi okkar

á svipstundu - hver kannast ekki við að finna lykt sem á augnabliki dregur upp ákveðnar tilfinningar í okkur. Lyktir eru heillandi og við getum stjórnað hvernig okkur líður með því að vera meðvitum um hvaða lyktir hafa áhrif á okkur.

 

Tók saman til gamans nokkrar af þeim lyktum sem hafa áhrif á mig, njótið: 

 

Lyktin af varðeldi í sólsetrinu

Fersk basilíka

Greni 

Lyktin af hamborgarahryggnum á aðfangadag

Mojito

Lyktin af hreinum rúmfötum 

Ruccola (klettasalat)

Lyktin af nýslegnu grasi á vorin 

Lyktin af nýföllnum snjó 

Svitalyktin af makanum

Lyktin af nýmöluðu kaffi 

"Flugvallalykt"

Lykt af nýþvegnum þvotti

Lyktin af hangikjöti

Lyktin af dökku rauðvíni

Lyktin af barnshári

Lyktin í kirkjunni  

Nóa Páskaegg  

Lyktin af grillaðri pylsu 

Lyktin inn í nýjum bíl

Gamalt ilmvatn eða ilmvatn makans

Ís

Lyktin af nýbökuðum smákökum

Kanill (ekki taka hann í nefið samt)

Lyktin af nýjum fötum

Reykelsi 

Frönsk súkkulaðikaka

Lyktin af bíópoppi

Mandarínur

Lyktin í gamla skólanum manns


Anna Sæunn

 


Sumar

Sumar

og lyktin af nýslegnu heyinu eins og draumur.

Sumar 

og ég faðmaði þig að mér því á sumrin er allt gott.

Sumar

og ég lá í dögginni og horfði á brennandi skýin.

Sumar

og ég grét í vindinum.

Sumar

og ég fann hjartað merjast.

Sumar

og ég dansaði inn í nóttina.

Sumar

og ég kláraði úr flöskunni. 

Sumar

og brenndi allar brýr að baki mér.

Sumar

og ég beið þín, elskaði þig.

Sumar

og líf mitt breyttist að eilífu. 

 

Sumar

minningar eru sárar,

en allar minningar eru góðar.


Það sem þú sagðir mér sonur

Af hverju ertu að gráta mamma? Þetta verður allt í lagi, það getur ekkert illt hent og við verðum alltaf saman. Ég spjara mig, þú líka og við eigum allt lífið framundan, ekkert getur stoppað okkur. Ég er ekki brothættur og bara á meðan þú elskar mig líður mér vel og á eftir að ganga vel, ég veit það. 

Lífið er nefnilega núna, hver stund, hvert augnablik er bara það sem skiptir máli, við erum saman núna og það er mest um vert. Enginn dagur er eins og það er alltaf eitthvað nýtt, við breytumst og þroskumst á hverjum degi, við mætum nýjum hindrunum og vegatálmum en við komumst alltaf yfir þá á endanum sama hversu langan tíma það tekur. Eftir ár getur allt verið orðið breytt, og sama hvernig þá þýðir það bara að við eigum að njóta þess sem við höfum í dag, vona það besta en undirbúa okkur fyrir það versta. 

Það sem nærir mann er lærdómurinn, ef við hættum að læra þá hættum við að lifa. Ef við erum hætt að upplifa nýja hluti og draga lærdóm daglega þurfum við að hrista upp í okkur og minna okkur á að lífið er eins og tímasprengja og við verðum að nota tímann sem við höfum, því við vitum aldrei hvað við eigum eftir.

Þess vegna er þú núna sem skiptir máli, vonin og trúin á það góða, á draumana og okkur sjálf. Án trúar á okkur sjálf erum við ekkert, því ef við trúum ekki á okkur sjálf gerir enginn annar það. Stundum verðum við að vera sjálfselsk, en það má aldrei bitna á líðan annarra. Heilbrigð skynsemi er lausnin. Öfgarnar verða alltaf meðul þeirra sjúku. 

Heilbrigð óhófssemi er betri en óhófssöm heilbrigði.

Hættu að staðna og stökktu út í djúpu laugina, ekki lofa neinum að tala þig frá því sem þú veist að á fyllilega rétt á sér, fólk jafnar sig. Fólk gleymir. Fólk lærir.

Mannstu eftir síðustu 5 árum í lífi þínu? Ég þori að veðja að sama hverju þú afrekaðir, þú getur alltaf hugsað að þú hefðir getað gert hitt og þetta betur, vandað þig meira, veitt meiri athygli, ræktað jarðveginn betur. Það er ekkert við því að gera, en þú ert búin að læra af því og ef þú vilt nýta þann lærdóm gerirðu betur á næstu 5 árum.

Ekki vera fullkomin, það fer engum vel að vera fullkominn, vertu bara fullhuga, bjartsýn og sjálfstæð og ákveðin í hvert skal stefna. Allir verða að móta sér stefnu, og því fyrr því betra. Það má alveg breyta um stefnu en svo lengi sem við erum alltaf að stefna eitthvert höfum við eitthvað að vinna að -við lærum, vöxum og döfnum og þá er lífið einhvers virði. 

Lífið er samt mikils virði, það er bara okkar að finna það, finna okkar leið svo það verði þess virði sem því var ætlað. Dauðinn kemur nógu fljótt og þegar hann bankar verður okkur að líða eins og síðustu mínúturnar hafi ekki farið til spillis.

Hvort heldur í lífi eða dauða þá erum við minning og minning er eitthvað sem getur breytt lífi.

Vertu sú minning.

 

Sum augu vita meira en önnur augu -þarf engin orð.

Bara hlustun og skilning.

 


Að lifa lífinu lifandi með Guði -eða ekki?

Af hverju þurfum við trú?
Þurfum við trú?
Af hverju er ekki lengur í tísku að trúa á Guð?
Erum við kannski svolítið upptekin af því að elta tískuna?

Síðan hvenær var hallærislegt að vera hamingjusamur?
Síðan hvenær var hallærislegt að elska lífið?

Öfgar kalla á afneitun og úthýsingu
Afneitun og úthýsing kallar á þunglyndi
þunglyndi kallar á að gera ekki það sem er gott fyrir mann heldur það sem er vont fyrir mann.
Það kallar á fíkn.

Fíkn er ekkert annað en afkvæmi öfga og afneitunar.
Fíknin fyllir upp í plássið sem Guð átti einu sinni eða ætti að eiga.
Er skárra að vera haldinn fíkn en að trúa á Guð?

Guð heitir mörgum nöfnum, Allah, Jesús, Búdda og Almættið eru meðal þeirra.
Við leggjum sjálf okkar skilning í okkar Guð

Öfgafull trúarbrögð hafa úthýst því sem er gott við trúna
Trúin byggir á trausti til sjálfs síns, til lífsins og til dagsins í dag.
Trúin tengist ekki á bókmenntum rituðum fyrir árþúsundum af
siðspilltum, valdagráðugum vitfirringum.

Trúleysi er eins miklar öfgar og bókstafstrú.

Guð er til en hann er ekki þar sem þú heldur að hann sé og hlutverk hans er ekki það sem þú heldur að það sé.

Hlutverk hans er að hughreysta þegar öll sund eru lokuð, hugga þegar tárin blinda og örva þegar örvunnar er þörf.

Guð er allt í kringum þig, hvað sem þú kallar hann, hvort sem þú trúir á hann, -þú nýtur návista hans á hverjum degi.

Og veistu hvað. Guð er líka kona. Guð er tvíkynja, tvíkynhneigð vera sem veitir blessun sína yfir allt það sem þú gerir ef þú ert trú/r sjálfri/sjálfum þér.

Guð er aflið sem dregur það besta fram úr þér. Sjálfstraust, sjálfsmynd, orku, gæska, upphaf og endir.

Guð ert þú í þínu besta sjálfi.

Börn eru ljós lífsins. Ef eitthvað getur nokkurn tímann fengið þig til að trúa, þá eru það þau.

Ekki útiloka þá von sem getur fylgt aðeins agnarlítilli trú. Trú á hið góða, trú á vonina, trú á lífið, trú á hamingjuna.

Hvað annað en trú fær okkur til að eltast við og upplifa allt það sem lífið hefur upp á að bjóða.

Ekki vera hræsnari og tengja trú við ofbeldi, siðspillingu, valdagræðgi eða enn verra: Gömul hindurvitni og orðagjálfur.

Trúin er skynsemi

Trúin er samferða

Trúin er allt sem við eigum þegar heimurinn snýr baki við okkur....


Annáll og ársuppgjör 2012

Þegar ég gekk um gólf á slaginu tólf fyrr í kvöld, Gamlárskvöld, með 2ja mánaða son minn í leit að skjóli fyrir hinum árlegu, alltof réttlætanlegu atómsprengjum, fann ég fyrir undarlegri tilfinningu. Tilfinningunni að vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Finnast ef til vill ekki hafa ræst alveg eins og ég ætlaði mér úr árinu, var ég kannski búin að kasta einhverju á glæ? Ég fann að ég klökknaði -en vissi ekki alveg af hverju. Þetta augnablik þegar nýja árið gekk í garð gerðist margt í hausnum á mér.

Á sama andartaki vöknaði mér fyrir augum þegar ég áttaði mig á því að þetta ár gæti bara ekki hafa verið betra á svo margan hátt...

2012: Í byrjun þín grunaði mig ekki hvar ég myndi standa að ári liðnu, ég held það hefði aldrei hvarflað að mér að ég væri búin að reyna allt sem í raun ég hef gert, kannski engin stórafrek en svo ótrúlega mikinn lærdóm og þroska samt sem áður.

Ég var nýbúin að taka ákvörðun um að halda áfram í Kvikmyndaskólanum eftir heldur betur dramatískt haust vegna skorts á fjárstuðningi við skólann. Það hafði vægast sagt slæm áhrif á mig og hafði í raun gefið upp alla von -en ákvað á endanum að taka upp þráðinn og sé svo sannarlega ekki eftir því núna.

Elsku besta langamma mín yfirgaf okkur og skildi eftir holu í hjartanu en á sama tíma minnti hún mig á að sama hversu stórum og mörgum áföllum við verðum fyrir í lífinu, er alltaf pláss fyrir lífsgleði og bjartsýni, hún var kona sem sannaði það. Þegar langamma dó var ég nýbúin að komast að því að ég væri ólétt, því betur fékk hún fréttirnar rétt áður en hún þurfti að fara -þegar Huginn okkar fæddist kom amma með síðustu skóna sem þú hafðir pjónað, bara síðastliðinn vetur, orðinn níræð, og handbragðið fullkomið að mínu mati -þótt þú hefðir viljað rekja þá upp út af ósýnilegum galla :)

Í vor fór öll mín orka og elja í að elda lítinn kút í bumbunni og klára síðust áfangana í skólanum -þeir einkenndust oft á tíðum af mikilli líkamlegr og andlegri vinnu langt fram á kvöld og stundum nætur, Samhliða var skellt saman einni 20 mínútna stuttmynd út í hrauni heima í Bárðardal með söngvum og herlegheitum, það var verkefni sem kostaði mig svefn og góðan slurk af geðheilsu í heilan mánuð, en allt gekk þetta á endanum og lokaafurðin var sýnd við góðar undirtektir í Bíó Paradís þann 29. júní: Söngstuttmyndin Flökkusál í leikstjórn Skúla Gautasonar.

Vá, aldrei datt mér í hug að ég gæti gert þetta... en júbb, eins og að drekka vatn! Eða þú veist, næstum..

Útskriftin var á sama tíma og voru þessi mánaðarmót full af blendnum tilfinningum í garð námsins. Hræðileg tilfinning að fá ekki að eyða hverjum degi með elsku bekknum mínum eins og síðustu tvö ár höfðu boðið upp á, en á sama tíma gleði og stolt yfir að vera búin með þetta krefjandi nám -sem gaf mér ekki snefil af háskólagráðu og 2.5 milljón króna reikning frá LÍN -en það var svo mikið þess virði!

Samt sem áður var strax deginum eftir brunað norður og beint í að gera upp íbúðina okkar fyrir norðan. Fyrri leigendur höfðu skilið við hana eins og tyrkneskt salerni og fóru nokkrir dagar í að klífa bekki og borð með sparsl og málningu í hendi og óléttubumban í sókn! Síðan tók við tveggja mánaða vinna í Kiðagilinu mínu sem liðu eins og sekúndubrot, -sumarið einkenndist af vinnu, grindarverkjum, þreytu og hreinlega að ná mér niður eftir andlegt álag mánuðina á undan.

Í júní, á sama tíma og ég var sem mest á haus í eftirvinnslu á lokamyndinni minni ásamt fleirum veiktist mamma alvarlega af heilahimnubólgu og lá á sjúkrahúsi í tvær vikur, -ég man ekki mikið eftir þessum tíma þar sem hann blokkaðist sennilega af álaginu en ég gerði mér ekki beinlínis grein fyrir alvarleika ástandins á þeim tíma. Því betur fór allt vel og mamma náði sér þrátt fyrir að þurfa að fara í bakaðgerð nokkrum vikum seinna.

Sumarið og haustið var óvenjuríkt af áföllum en m.a. horfði ég á eftir pabba hendast niður stiga, systur mína velta yfir sig fjórhjóli en einhvernveginn var heppnin alltaf til staðar og kom í veg fyrir meiriháttar slys. Ég býst við að maður megi þakka fyrir það.

Í haust hins vegar dundi á ógæfa með fárviðri um miðjan september þar sem tugir fjár týndist og grófst í fönn hjá mömmu og pabba, gríðarleg vinna fór í leitir næstu daga á eftir við erfiðar aðstæður. Einnig fór rafmagn og símasamband á svæðinu svo þetta voru heldur betur skrítnar aðstæður. Aldrei hafði ég upplifað að geta næstum ekki sofið fyrir kulda, en á sama tíma var þetta lærdómsríkt og svolítið kósý. Stressið í kringum fjármissin heima var þó mikill og af einhverri ástæðu veiktist ég mikið eina nóttina, það mikið að ég var flutt á sjúkrahúsið á Akureyri með sjúkrabíl og allt leit út fyrir að ég væri að fara að eiga -mánuði fyrir tímann. Pabbinn rauk úr vinnu í Reykjavík og brunaði norður, en því betur var stubburinn bara að plata og mamman bara sennilega orðin of kvíðin og stressuð í öllu þessu sem gekk á. Við ákváðum að ég hætti að vinna á þessum tímapunti og fórum suður og komum okkur fyrir í nýrri íbúð sem við fengum á leigu í Garðabæ. Þá hófst biðin...

Ótrúlega óheppni með heilsufar í minni nánustu fjölskyldu á árinu en afi minn og amma sem búa á Selfossi voru mikið fyrir norðan hjá foreldrum mínum í sumar að aðstoða og í haust var verið að stækka fjárhúsin og afi í því verkefni. Hann tók upp á því dag einn að detta ofan í grunninn og fá skurði á haus og andliti svo fossblæddi -fékk úr því sýkingar og ýmis leiðindi sem eru enn að gróa. Daginn eftir datt svo hún amma og handleggsbraut sig, það illa að ekki gekk vel að koma brotinu saman. Til að bæta við fékk Óli bróðir botnlangakast núna milli jóla og nýárs og fór í bráðabotnlangatöku.

Þannig að þetta er búið að vera ansi skrautlegt veður og heilsufarsár það er alveg víst.

En svona til að halla aðeins á gleði og bjartsýnishliðina:

Þann 21. október, á afmælisdeginum hans pabba síns, fæddist litla ljósið okkar hann Huginn Haukur, hann var skírður á jóladag. Nýja hlutverkið kallaði á aukaskammt af þolinmæði, enn meiri skammt af þolinmæði, smá svefnleysi og yfir höfuð stutta svefndúra, miklar móðuráhyggjur og hundrað "tékka á andardrættinum" ferðir fram og til baka en fyrst og fremst hefur það gefið okkar óendanlega gleði, þakklæti og ást til þessa litla lífs sem kom og gerði líf okkar svo margfalt meira virði, og ekki að það hafi verið eitthvað lítils virði fyrir.

Að sjá krílið vaxa og dafna er ólýsanleg gjöf sem er ekki hægt að lýsa og oft stari ég bara í litla andlitið og hugsa mér mér hvernig í fjandanum ég hafi farið að því að búa þetta til -og ég sem man ekkert úr efnafræðinni sem ég lærði í MA! Allt verður lítilfjörlegt í samanburði við hann, veðrið, formið, bumban, bólurnar -svo lengi sem hann er heilbrigður og heldur áfram að brosa má þetta sökkva sinn sæ, en það þýðir ekki að maður þurfi ekki að huga um það líka ;)

Það hljómar örugglega klisjulega, væmið og leiðinlega en það að vera foreldri hefur klárlega gert mig að betri manneskju. Ég lít framtíðina allt öðrum augum. Árið hefur kennt mér að framtíðarplön og framtíðarmarkmið virka og skila árangri þrátt fyrir að taka bara skref fyrir skref -nákvæmlega eins og litlu börnin, maður sér þau ekki stækka en samt einhvernveginn tekst þeim að stækka um tugi sentimetra á einu ári!

Tíminn líður svo hratt og hleypur frá manni. Það sem maður gerir í dag verður gleymt á morgun, ef það verður einhver "á morgun". Sonur minn lét mig sjá að hvert augnablik er dýrmætt, hver snerting ómetanleg og hver stund gersemi sem gæti aldrei komið aftur. Framtíðin hefur aldrei skipt mig eins miklu og eins litlu máli og nú. Hver dagur hefur sínar þjáningar og gleði og morgundagurinn kemur á ógnarhraða hvernig sem honum er eytt.

Árið 2013 verður fyrsta árið hans Hugins Hauks, árið sem flest börn upplifa sem mestar breytingar á einu ári og þroskast og læra hvað mest. Ég veit að ef það verður eins fljótt að líða og 2012 er eins gott að halda fast á spöðunum og byrja að njóta og upplifa. Ég held það sé það sem lífið bíður upp á.

Kæra 2012

Þú kenndir mér að ég sjálf er verkfæri, ég er áhugaverð eins og ég er.

Þú kenndir mér að lífið er brothætt og á sama tíma er það kraftaverk.

Þú kenndir mér að samband er vinna og ástin getur orðið meiri og betri með árunum.

Þú kenndir mér að ég á stóra og yndislega fjölskyldu sem ég þarf að passa upp á eins lengi og ég get.

Þú kenndir mér að hefðir eru góðar en nýjar hefðir koma með tímanum og venjast alveg jafn vel.

Þú kenndir mér að öfgar og útlitsdýrkun er ekki málið heldur hreint hjarta og skýr markmið.

Þú kenndir mér að umhyggja í garð annarra er miklu meira nærandi og gefandi en hatur og afbrýðisemi.

Þú kenndir mér að treysta ekki hverjum sem er, það er í lagi að velja hverja þú hefur í lífi þínu -það er allt í lagi að það líki ekki öllum við mann, öðruvísi öðlast maður ekki hamingju.

Þú kenndir mér að stundum þarf maður að brjóta odd af oflæti sínu til að ná sáttum.

Þú kenndir mér að bera virðingu fyrir skoðunum og áhugamálum annarra.

Þú kenndir mér að fjölbreytni er af hinum góða

Þú kenndir mér að hætta að dæma fólk út frá því sem ég heyri

Þú kenndir mér að það þarf að taka til í hugum fólks varðandi jafnrétti og uppeldi.

Þú kenndir mér að lífið bíður upp á svo miklu meira en bara það sem við köllum skemmtanir og "djamm"

Þú kenndir mér að ef ég trúi ekki á sjálf mig, gerir enginn annar það

Þú kenndir mér að þykja vænt um mig og mína eins og við erum

Þú kenndir mér að elska, læra, bíða, kvíla mig, slaka, vinna og vera þolinmóð.

Ákall til 2013

Ég bið að árið 2013 verði öllum til þroska og velfarnaðar. Ég bið að fólkið í landinu taki vel ígrundaðar ákvarðanir varðandi Alþingiskosningarnar í vor en láti fyrst og fremst hjartað ráða en ekki auglýsingar og pressu annarra. Við þurfum á því að halda að algerlega hæfasta fólkið sem ber hag þjóðarinnar fyrir brjósti verði valið -eins einfalt og það er ;)

Ég bið að árið 2013 verði fólki ljóst að vanvirðing í garð annarra og þar á meðal kvenna er engum öðru að kenna en samfélaginu og þeim meinum sem þar gróa. Við þurfum að líta okkur nær í stað þess að auka öryggisgæslu eða umræðu um t.d. nauðganir þarf að fara inn í skólana með fræðslu og tryggja að þeir sem eru sjúkir fái þau úrræði sem þeir þarfnast. Vandamálið liggur okkar á meðal og í þeim skilaboðum sem VIÐ gefum. Samfélagið er OKKAR ábyrgð.

Ég bið að 2013 verðir ár fjölskyldunnar, að núverandi og komandi ríkisstjórn taki fastari skref í áttina að bjarga heimilunum og tryggja þjónustu við þá sem þurfa mest á því að halda.

Ég bið að árið 2013 verðir vænlegt fyrir íslenskan efnahag og að þeir sem vettlingunum valda taki skynsamlegar ákvarðanir varðandi fjárfestingar og skattamál.

Ég bið að árið 2013 verði fólk farið að skilja að það eru langtímamarkmiðin og eljusemin sem koma okkur þangað sem við ætlum okkur. Skyndiákvarðanir, áhættufjárfestingar og auðveldu leiðirnar eru í flestum tilfellum til þess gerð að valda okkur vonbrigðum og enn verra -tjóni.

Ég bið að árið 2013 verði bjartara í trúmálum, að fólk beri virðingu fyrir trú annarra og leyfi börnunum að upplifa trúna, hver sem hún kann að vera, eins og þau þurfa og kunna best, -frá hjartanu.

Elsku 2013, ég hlakka til að takast á við þig, stækka búðina mína, læra, vinna, ala upp barnið mitt og eiga góðar stundir með fjölskyldu og vinum. Ég hlakka til að gera 2013 að ennþá betra ári!


34. vika -meðgönguhugleiðingar.

Í tilefni af því að vera komin 100 vikur á leið -ætla ég að setja inn smá óléttuhugleiðingar.

Fyrir 3 árum síðan gat ég ekki hugsað mér að vera ólétt -þ.e. þótt ég hefði etv alveg viljað eiga barn gat ég ekki hugsað þá hugsun til enda að verða feit, útþaning og "ógeðsleg" -eins og ég held ég hafi hugsað mér að ég hlyti að verða ef ég yrði ólétt. Þegar ég hugsa til baka finnst mér fyndið og fráleitt hvað maður getur verið skammsýnn, barnalegur og heimskur í áliti sínu og hugsunum. 

Ég viðurkenni að til að byrja með á meðgöngunni var ég svolítið stressuð yfir að þyngjast óþarflega mikið og hvernig ég myndi líta út eftir á. Fengi ég mikið af slitum, yrði maginn aldrei eins aftur?  -en það hefur smátt og smátt dalað eftir því sem á hefur liðið og einhvernveginn hugsa ég voðalega lítið út í það núorðið, komin 34 vikur. Eftir því sem spörkin og lífið inn í mér færist í aukana, eftir því sem ég skoða þrívíddarmyndirnar af syni mínum oftar, þá verður mér alltaf meira og meira sama um hvað ég gæti þurft að leggja á mig til að koma honum heilbrigðum í heiminn, fæðingin stressar mig ekki einu sinni.

Þrátt fyrir ýmsa vankanta og óþægindi af kúlunni finn ég oftast ekkert mikið fyrir henni og kann mjög vel við hana í speglinum, er orðin það vön henni að ég gæti alveg eins hugsað mér að vera með hana alltaf -þótt ég vildi auðvitað fá krílið í hendurnar, þetta verður ótrúlega eðiliegt einhvernveginn. 

Kannski fer þetta saman við að vera farin að hlusta á atómljóðalestur á Rás eitt í heilan dag eins og ekkert sé -getur verið að maður sé að þroskast?? Ef svo er gefðu mér meira af þessu -I like it!

Þrátt fyrir að vera mikið rólegri yfir smá auka fitu, etv. tilvonandi slitum og slappri húð viðurkenni ég alveg að ég er komin í startholurnar að fara að hreyfa mig um leið og þessu er aflokið -ekki af því að ég er svo æst að koma mér í klikkað form og halda mér grannri, ég hef bara svo lítið getað hreyft mig á meðgöngunni sökum meðgöngukvilla og grindarverkja að ég er farin að iða í skinninu -fyrir utan að mataræðið þráir að komast í réttan farveg, og ekki veitir af fyrir brjóstgjöf og fl. Svo togar það etv. líka í mann að fara að koma skikki á matmálstíma og mataræði útaf litla stubbi sem maður vill auðvitað að fái sem fyrst að kynnast næringarríkum og góðum mat um leið og hann má :) Svo kitchenaid og önnur elhústæki mega fara að búa sig undir erfiðan vetur!

Það er allavega nóg af hugsunum og pælingum hjá manni þessa dagana, og gott að finna fyrir því frelsi að vera ekki í panik yfir ummálinu á sér eða einhverju öðru, þetta tekur allt sinn tíma og sinn toll og maður einhvernveginn sættir sig bara við það -það er svo mikil upplifun að ganga með barn og mikið ævintýri að það er ekki psurning um að leggja þetta á sig finnst mér. Svo byrjar maður bara rólega og heldur sér þokkalegum þegar þetta er búið -með nýja krílinu auðvitað.

Sum sé; tilvonandi óléttur og nýjar, takið þessu með tillhlökkun og bjartsýni, þetta er ekkert nema gaman og þarf ekki að fela í sér neina erfiðleika, mikla þyngdaraukningu eða útlitsbresti, snýst bara um að hafa gaman af, njóta og vera jákvæður!

 

Kveðja frá tilvonandi móður

Anna Sæunn Ólafsdóttir

ÍAK einkaþjálfari

Leikkona

 


HRÆRIVÉLAVEISLA!

Hæhó og halló!

 

Hvernig væri að fara að láta í sér heyra! 6 vikur í að krílastubbur komi í heiminn og mín málar hrærivélar!

Sjá á facebook síðunni minni hvernig eitt stykki gömul KitchenAid hrærivél fær magnaða yfirhalningu! :)

 

https://www.facebook.com/media/set/?set=a.10151139631381100.465844.508761099&type=1

 

kveðja Anna Sæunn

leikkona, söngkona, einkaþjálfari og fl.


Næsta síða »

Um bloggið

Anna Sæunn Ólafsdóttir

Höfundur

Anna Sæunn Ólafsdóttir
Anna Sæunn Ólafsdóttir
Höfundur er móðir, listamaður, uppistandari, heilsufrík í laumi.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 72683 623167801067147 896279264 n
  • VALENTÍNUSARVÖFFLUR
  • Graflaxlúxussalat

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband