Er það mín eða þín siðblinda?

Í ljósi umræðunnar um óþolandi fólk í verslunum kann ég skemmtilega sögu. 

 

Föstudagseftirmiðdagur. Ég var nýbúin að skutla eiginmanninum og hágrátandi syni mínum heim með kúkableiu, eftir fund með fjármálaráðgjafa þar sem við höfum gleymt að grípa með okkur bleiu af því að fundinum var seinkað, því ráðgjafinn tvíbókaði sig og þurftum því að koma beint frá dagmömmunni.

 

Ég var að enda við að skutlast um Kópavoginn í hinni "belowed" 17:00 umferð með ekkert nema maskínukaffi frá ráðgjafarfyrirtækinu, streymandi um blóðið með tilheyrandi hjartslætti, skjálfta og hungurverkum, að láta mig dreyma um hnetustykki sem ég sá í hillingum.

 

Það rifjaðist líka upp fyrir mér, til mikillar ánægju, að ég átti að mæta í ristilspeglun á mánudeginum og mætti bara borða tært, fljótandi fæði alla helgina.  Svo ég þyrfti nú allavega að eiga eitthvað bitastætt í þeim tærfæðisefnum. Eða eitthvað síður bitastætt þ.e.a.s.

 

Ég ákvað því að láta fimmta og síðasta heilræði fjármálaráðgjafans sem hann var að að enda við að tyggja ofan í okkur,  um að fara aldrei, aldrei, ALDREI svangur að versla, sem vind um eyru þjóta og réttlætti ákvörðun mína um að koma við í Krónunni á leiðinni heim með því að það væri ekki til brauð heima. Og latar húsmæður verða að eiga brauð. 

 

Þegar þangað var komið var ég komin með hungurverki og greip auðvitað það í körfuna sem fyrir varð. Ekki nóg með að ég þyrfti að eiga nóg af fjölbreyttum vökvum til að neyta um helgina þá rann það upp fyrir mér að þetta væri síðasti dagurinn sem ég mætti borða fasta fæðu, þangað til á mánudagssíðdeginu. Þá fyrst tók græðgin völdin!

 

Í kvöld skyldi etið!

 

Þegar ég var að verða komin að kössunum rak ég augun fyrir tilviljun í minnsta nammibar á landinu, ef borinn saman við meðal sælgætissjálfsafgreðslubari á Íslandi, en þeirrar nýlundu gætti á þessum bar að það var 50% afsláttur á föstudögum líka, og fljótandi fæði á laugardegi þýðir bara eitt: Að slást við 10 ára krakka um Haribo egg á föstudegi til tilbreytingar!

 

Á þessum tímapunkti var ég farin að skjálfa af kaffivímunni og fyrsta skeiðin af jelly babies rann, ekki ofan í pokkann, heldur beint á gólfið! Ég stóð eins og asni til að byrja með, og leið kjánalega að hafa ekki getað hitt í pokann, þar sem ég vildi meina að ég væri ekki einu sinni vön að hanga á nammibörum hvort sem er. En varð svo hugsað til gólfins á nammibarnum í Hagkaup og hugsaði með mér að einhver góðviljaður starfsmaður myndi sópa eftir mig þegar ég væri farin. Þegar ég gerði mig klára í að halda áfram að skófla í pokann fann ég að einhver stóð álengdar og horfði á mig, ég hitnaði smá í vöngum af einhverri ástæðu en leit ekki upp. Þá heyrðist rödd: “Ætlarðu að skilja þetta bara eftir svona?”

 

Ég leit upp skelfd innra með mér og hugsaði að nú hefði starfsmaður séð til mín og ekki líkað umgengnin, en sá í staðinn fýldan, eldri mann standa við körfuna sína og stara á mig. Ég reyndi að halda áfram eins og ekkert hefði í skorist og muldraði vandræðalega “Ja.. Já, ekki set ég þetta aftur ofan í”. Þar með hélt ég að málið væri dautt, nema hvað að kallinn stendur þarna áfram og heyfir sig ekki, svaraði mér ekki einu sinni, og um leið áttaði ég mig á að hann væri alveg vís með að fara og klaga mig fyrir að sulla óvart nokkrum hlaupköllum á gólfið. Þannig að ég hélt áfram: “Já það þyrfti náttúrulega bara að sópa þetta”, og hugsaði til starfsfólksins sem var allt fast á kassa og myndi líklega halda að ég væri að grínast ef ég kæmi og segði að ég hefði óvart misst nokkra hlaupkalla í gólfið og þyrfti að þrífa það upp.

 

En einhvern veginn þorði ég ekki að láta reyna á ásökunartóninn og dauðadóms svipinn á þessum ágæta manni og skúbbaði köllunum því nær ósjálfrátt með höndunum upp í rennu sem var fyrir neðan nammibarinn. Ekki veit ég hvort honum hefur liðið eitthvað betur með það en hann var allavega farinn þegar ég leit upp, og ég búin að missa listina á að fá mér meira nammi. Þannig að tvær tegundir enduðu í nammipokanum -sem endaði líf sitt sem fljótafgreiddur forréttur minn þegar heim var komið.

 

Ég passaði mig að taka aukahring í búðinni eftir þessa dómsdagsupplifun svo ég myndi nú örugglega ekki lenda nálægt honum í röð á kassann. Loks þegar ég sá að kallinn var farinn hætti ég mér í eina af búðarlöngu röðunum á kassa og á meðan ég beið blöstu við mér orðin “Komdu fljótt aftur ” fyrir framan mig. Ekki beint það sem ég hugsað á þessum tímapunkti þar sem mig langaði mest af öllu að hverfa ofan í jörðina, eftir að hafa látið afskiptasamt, gamalt greppitrýni láta mér líða eins og ég væri fáviti af því að ég var ekki komin með skúringarmoppuna á loft inn í verslun ef því að blandípokað mitt datt aðeins í gólfið.

 

“Fyrirgefðu hefurðu komið í nammiland í Hagkaup eða??”, “Áttu eitthvað bágt að vera að gera lítið úr fólki sem þú þekkir ekkert?”, “Er ég kannski eitthvað siðblind?” Þetta og fleiri hugsanir fóru í lestarferð um hausinn á mér þegar ég keyrði heim, úrill, svöng og niðurrifin af gammalli kartöflu á föstudeginum fyrir helgina sem ég mátti ekki borða neitt. What a life, what a life.

 

Ég komst samt að þeirri niðurstöðu að ég hlyti að vera átta sinnum skemmtilegri og betri manneskja en kartöfluhausinn í Krónunni, en ég viðurkenndi að vera vissulega haldin klaufaskap, agaleysi og meðvirkni. 

 

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Anna Sæunn Ólafsdóttir

Höfundur

Anna Sæunn Ólafsdóttir
Anna Sæunn Ólafsdóttir
Höfundur er móðir, listamaður, uppistandari, heilsufrík í laumi.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 72683 623167801067147 896279264 n
  • VALENTÍNUSARVÖFFLUR
  • Graflaxlúxussalat

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband